Engar vörur í körfunni
Hleðsluvaktin var stofnuð í Grindavík undir lok 2019 en vegna komu Covid-19 til landsins í byrjun 2020 urðu miklar tafir á verkefninu. Fyrsta hleðslukerfið frá okkur var sett upp snemma 2021 en við leggjum áherslu á hleðslulausnir fyrir fjölbýli. Okkar hleðslulausnir gefa húsfélögum hagkvæmari hleðslukerfi og ódýrari hleðslur fyrir íbúa.
Okkar hleðslukerfi samanstanda af raflögnum (hleðsluinnviðir) og snjöllum hleðslustöðvum sem mæla og senda rafmagnssálag og rafmagnsnotkun yfir í vefkerfi sem álagsstýrir og sundurliðar hleðslunotkun niður á hverja hleðslustöð. Við notum hleðslukerfið sem vefþjónustu við íbúa til að vakta hleðslustöðvar og veita aðstoð í gegnum síma og net.
Við önnumst uppsetningu á okkar hleðslukerfum þar sem raflagnir mynda grunnkerfi af hleðsluaðstöðu fyrir húsfélagið. Við sjáum einnig um að setja upp hleðslustöðvar eftir pöntunum frá húsfélagi og/eða íbúum. Við önnumst allt tæknilegt viðhald á okkar hleðslustöðvum til að einfalda málin fyrir okkar viðskiptavini með þjónustuveri og neyðaraðstoð sem er opin alltaf.
Okkar SÝN er að orkuskiptin eiga að vera ánægjuleg og færa fólki aukna hagkvæmni í sínum samgöngum.
Okkar STEFNA er að bjóða áreiðanlegt hleðslukerfi fyrir íbúa fjölbýla þegar margir þurfa að hlaða í einu og frelsi í raforkukaupum og greiðslumiðlun af hleðslunotkun fyrir húsfélög.
Okkar MARKMIÐ eru að nota litla yfirbyggingu sem netfyrirtæki til að bjóða ávallt hagkvæmt hleðslukerfi og sérhæfa okkur í hleðslulausnum fyrir fjölbýli til að ná 500 fjölbýlum í þjónustu fyrir lok 2030.
Við erum svona hjón sem náum saman í flest öllu, sem dæmi settum við upp nýsköpunarfyrirtæki árið 2009 sem kom nýrri rafmagnsmælingarvöru á alþjóðlegan markað og var keypt upp af stórum fjárfestingarsjóðum. Árið 2014 settum við svo upp þjónustufyrirtæki fyrir rafmagnseftirlit í fyrirtækjum á Íslandi og í Danmörku, en það gekk ekki upp til lengdar. Við settum svo upp Hleðsluvaktina árið 2019.. og já alveg rétt við eigum 7 (sjö) börn saman.
Árið 2019 var fimmta barnið nýkomið í heiminn og þá bauð fyrirtækið Smappee í Belgíu, sem við höfðum þá unnið með í nokkur ár, okkur að selja nýju hleðslustöðvarnar þeirra. Við gripum það á lofti þar sem það var lítil samkeppni á Íslandi og því mikil tækifæri. Hleðslulausnir voru yfirverðsettar og erfitt og dýrt að innheimta fyrir hleðslunotkun.
Við vorum líka eins og flestir aðrir mjög hrifin af því að rafbílar voru að koma sterkir inn á markað og litu vel út. Okkur þótti þetta mjög spennandi þar sem rafmagn á Íslandi er líka hrein orka og því betra eldsneyti.. en aðallega spennandi til að spara pening og hætta að flytja inn eldsneyti.
Þetta small líka ótrúlega vel við fyrir okkur þar sem hleðsla rafbíla snýst einna mest um rafmagnsmælingar, sem er okkar heimavöllur. Við fórum því af stað á dísel bílunum okkar að flakka á milli húsfélaga til að setja upp hleðslustöðvar til þess að hlaða rafbíla, og það voru margir íbúar sem bentu okkur góðfúslega á það misræmi.
Það er dýrt að hefja nýtt verkefni með lager af hleðslustöðvum, vinnuferðum og tímafrekum tilboðsgerðum og þar sem við byggðum mikið á undirverktökum kom lítill peningur inn til okkar. En við byggðum á því sem við höfðum.. ástinni! og líka mikilli fjárfestingu til framtíðar.
Við komum inná markað sem var tilbúin fyrir okkur með betri verð og góðar lausnir og það gekk mjög vel. Samkeppnin er áhugaverð eins og í flestum brönsum og við ráðum vel við tungulipra samkeppni en ekki eins vel við ríkisrekna samkeppni sem við skiljum ekki að megi halda áfram.
Það er svo sem enginn tími heppilegur til þess að vera rekin út úr bænum sínum en það gerðist 10. nóvember 2023 vegna náttúruhamfara. Jörðin opnaðist og eldgos kom upp við Grindavík sem allt var í fyrir fjölskylduna og fyrirtækið. Við bjuggum við skammtaðan aðgang að heimili og fyrirtækjaaðstöðu í fleiri fleiri vikur. Við fluttum nokkrum sinnum á milli staða og urðum fyrir miklum töfum í þjónustu og vöruafhendingu.
En við stóðum þetta af okkur með aðstoð fjölskyldu og góðra viðskiptavina.
Við leggjum mikið uppúr samvinnu við gott fólk (verktakar) og höfum saman náð frábærum árangri en bransinn er ekki alltaf bara bollakökur og regnbogar. Við höfum átt mislukkað samstarf við stóra og litla aðila sem hafa tekið sinn toll, en við lifum og lærum af því til að styrkja okkar áframhaldandi vegferð.
Við horfum svo bjartsýn inní framtíðina að við þyrftum helst að nota sólgleraugu!
Við hlökkum til að kynnast nýju fólki sem vill hlaða sína bíla með okkur og ætlum okkur að ná okkar markmiðum. Við erum alltaf að vinna í því að bæta okkar ferla og árangur fyrir okkar fyrirtæki og sérstaklega fyrir okkar frábæru viðskiptavini.
Kær kveðja Hilmir og Svanhildur