Skilmálar - Þjónustusamningur

 

Hleðsluvaktin ehf., kt. 691119-1650 rekur þjónustu á hleðslukerfum, sem skilgreinist sem raflagnir og tengikvíar til tenginga við hleðslustöðvar ásamt hleðslustöðvum til rafmagnshleðslu bifreiða í fjölbýlum, og eru skilmálar þjónustunnar eftirfarandi:

 

  1. Samþykki á þjónustu
    1. Með pöntun, uppsetningu og/eða notkun á hleðslukerfi frá Hleðsluvaktinni hefur viðkomandi húsfélag samþykkt þjónustuskilmálana.
  2. Hleðslukerfi & álagsdreifing

    1. Hleðslukerfi samkvæmt þessum samningi skal vera raflögn (grunnkerfi) frá rafmagnstöflu til tengingar við hleðslustöðvar í gegnum tengikvíar í bílageymslum, eða í jarðveg fyrir hleðslustöðvar utandyra ásamt hugbúnaði til greiðsludreifingar og álagsstýringar við notkun hleðslustöðva.
    2. Allar hleðslustöðvar sem eru tengdar við raflögnina eru hluti af hleðslukerfinu.

    3. Rafmagnsvar/vör í rafmagnstöflu fyrir hleðslukerfið skulu vera merkt 'Hleðslukerfi - Hleðsluvaktin 5131919'.

    4. Óheimilt er að tengja aðrar hleðslustöðvar en þær sem tilheyra hleðslukerfinu frá Hleðsluvaktinni við hleðslukerfið til að viðhalda réttri álagsdreifingu og rafmagnsöryggi byggingarinnar.

    5. Óheimilt er að tengja önnur raftæki/rafbúnað en hleðslustöðvar frá Hleðsluvaktinni við hleðslukerfið.

    6. Hleðsluvaktin eða rafverktaki í umboði Hleðsluvaktarinnar skal einn hafa leyfi til að tengja hleðslustöðvar við hleðslukerfið.

    7. Álagsdreifing skal vera nettengd og virk áður en hleðsla í gegnum hverja hleðslustöð hefst.

  3. Ábyrgð & húsreglur

    1. Ábyrgð Hleðsluvaktarinnar á hleðslukerfi viðskiptavinar, s.s. aðgangur og virkni hugbúnaðs og netsamband skal vara jafn lengi og þjónustusamningur þessi er gildur.

    2. Ábyrgð á raflagnaefni skal vera samkvæmt reglugerð Rafiðnaðarsambands Íslands

    3. Net- og álagsdreifingarbúnaður skal vera með 2ja ára neytendaábyrgð.

    4. Ábyrgð á hleðslustöðvum sem tengjast við hleðslukerfið skal vera samkvæmt 2ja ára neytendaábyrgð nema annað sé tekið fram.

    5. Öll ábyrgð skal fyrnast með öllu og um leið og þriðji aðili án aðkomu eða samþykkis Hleðsluvaktarinnar gerir viðbætur eða breytingar á hleðslukerfinu.

    6. Viðskiptavinur skal skrá í húsreglur sínar að:
      'Hleðslukerfi fyrir rafmagnshleðslu bifreiða er sjálfstætt samskiptakerfi húsfélagsins og er óheimilt með öllu að setja upp og/eða tengja hleðslustöðvar við hleðslukerfið án aðkomu og samþykkis Hleðsluvaktarinnar til að forðast áhættur í rafmagnsálagi að hluta og/eða í heild fyrir bygginguna.'

    7. Hleðsluvaktin ber ekki ábyrgð á skemmdarverkum, ákeyrslu eða breytinga á hleðslukerfi eða hleðslustöð eða annarra þátta sem má rekja til íbúa, þriðja aðila eða annarra atvika ótengdum Hleðsluvaktinni.

    8. Hleðsluvaktin er ekki ábyrg fyrir skemmd/tjóni á bíl og/eða hleðslustöð né áverkum/meiðslum íbúa eða annarra persóna eða aðila við notkun á hleðslukerfi og/eða hleðslustöð sem ná út fyrir reglur um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991.

    9. Hleðsluvaktin ber ekki ábyrgð á uppitíma hleðslukerfis vegna rafmagnsleysis, spennufalls, yfirspennu eða annarra utanaðkomandi þátta úr raforkuneti.

    10. Hleðsluvaktin ber ekki ábyrgð á uppitíma hleðslukerfis ef viðskiptavinur annast sjálfur netsamband við hleðslukerfið og tengdar hleðslustöðvar.

    11. Hleðsluvaktin ber ekki ábyrgð á netsambandsleysi er má rekja til GSM farsímanets

  4. Þjónusta & viðbragð

    1. Hleðsluvaktin skal halda úti þjónustuveri yfir opnunartíma með gjaldfrjálsu símanúmeri 5131919 og í gegnum netfangið thjonusta@hledsluvaktin.is.

    2. Þjónusta Hleðsluvaktarinnar við húsfélag og íbúa skal ná til leiðbeininga fyrir notkun á hleðslustöð og símaappi ásamt almennri aðstoð og tæknilegri úrlausn við hleðslu bifreiða tengda við hleðslukerfið.

    3. Hleðsluvaktin skal hafa neyðarþjónustu eftir opnunartíma með gjaldfrjálsu símanúmeri 5131919:
      Neyðarþjónustan er einungis ætluð viðskiptavin/íbúa til aðstoðar og úrlausnar ef vandamál við hleðslustöð kemur í veg fyrir að hægt sé að hefja eða ljúka hleðslunni.

    4. Viðbragðstími við bilunum sem tilkynnast til neyðarþjónustu skal vera að hámarki 3 virkir dagar eða eftir atvikum og aðgengi að varahlutum.

    5. Viðbragðsþjónusta Hleðsluvaktarinnar skal ná til bilana í hleðslukerfi og/eða hleðslustöðvum sem tengdar eru við hleðslukerfið sem koma í veg fyrir að hleðsla geti hafist eða stöðvast/lokið.

    6. Viðbragðsaðgerðir vegna bilana sem ekki teljast til ábyrgðar skulu innheimtar samkv. gjaldskrá Hleðsluvaktarinnar um viðgerð og/eða þjónustuútköll.

  5. Greiðslumiðlun & gjaldtaka

    1. Hleðsluvaktin notar greiðslumiðlun til þess að sundurliða kostnað rafmagns á notkun hleðslustöðvar á stakan notanda hjá viðskiptavin.
    2. Hleðsluvaktin eða þjónustuaðili í umboði Hleðsluvaktarinnar innheimta kostnað rafmagns við hvern notanda og greiða til húsfélagsins gegn þjónustugjaldi sem fer eftir gjaldskrá hverju sinni.
    3. Viðskiptavinur skal eiga val um greiðslumiðlun frá 3ja aðila sem getur tengst við hleðslukerfi Hleðsluvaktarinnar til að annast gjaldtöku.
    4. Gjaldtaka skal vera skráð, rekjanleg og auðkennandi með íbúðarnúmeri og/eða kennitölu hvers sem hleður í gegnum hleðslukerfið.
    5. Gjald fyrir hleðslu skal nema þeirri upphæð sem viðskiptavinur setur sem gjald fyrir hverja kWst notaða.
    6. Gjaldtaka fyrir notkun hjá hverjum notanda fyrir hleðslu bifreiða skal almennt vera mánaðarleg.
    7. Viðskiptavinur útvegar rafmagn til hleðslukerfisins nema sé um annað samið
  6. Hleðslustöðvar og netsamband

    1. Hleðslustöðvar eru pantaðar til kaups eða leigu af húsfélagi eða íbúa.

    2. Uppsetning á pantaðari hleðslustöð skal almennt vera innan 5 virkra daga nema ef aðstæður og birgðarstaða leyfa ekki.

    3. Hleðsluvaktin skal tilkynna pöntunaraðila um fyrirséða seinkun á uppsetningu hleðslustöðvar.

    4. Pöntunaraðili skal tryggja Hleðsluvaktinni aðkomu inn í bílageymslu og að engin fyrirstaða sé í sérstæðinu fyrir Hleðsluvaktina að setja upp hleðslustöðina svo sem dekk, skápar o.fl..

    5. Ef tafir hljótast vegna fyrirstöðu getur komið til aukakostnaðar fyrir pöntunaraðilann sem skal vera samkvæmt gjaldskrá Hleðsluvaktarinnar.

    6. Aðeins Hleðsluvaktin hefur leyfi til að fjarlægja hleðslustöð frá hleðslukerfinu.

    7. Netsamband skal liggja fyrir til álagsdreifingar og til hverrar hleðslustöðvar sem skal tengja við hleðslukerfið.

  7.  Þjónustugjald & samningstími

    1. Viðskiptavinur greiðir ekki þjónustugjald af hleðslukerfinu.

    2. Þjónustugjald er greitt af notendum hleðslustöðva og skal vera samkvæmt tilboði eða umsömdu gjaldi hverju sinni.

    3. Samningur þessi er bundinn í 12 mánuði frá uppsetningu hleðslukerfis og/eða notkun á fyrstu uppsettu hleðslustöðinni innan lóðarmarka viðskiptavins.

    4. Þjónusta endurnýjast sjálfkrafa um 12 mánuði ef uppsögn berst ekki með 3ja dagatalsmánaða fyrirvara.

  8. Ágreiningur
    1. Samningsaðilar eru sammála um að reyna af fremsta megni að leysa öll ágreiningsmál utan dómsmála.
    2. Ef ágreiningur verður ekki leystur með sameiginlegri niðurstöðu má reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Fara efst